Einar Ingimundarson

 

Einar14

Fermingarmynd af Einari 14 ára ( f.1926 ).

 

Einar&Dasy

Ingimundur Guðmundsson og Guðlaug Sigfúsdóttir foreldrar Einars. Guðlaug var einbirni, hún er skyld Sigvaldason fjölskyldunni.

 

EinarBjarni

Einar Bjarni Guðmundsson (h) föðurbróðir Einars var barnlaus.
Hinn föðurbróðirinn, Ársæll (v) átti einn son Valgeir Haukdal.
Valgeir var lengi vel eini frændinn sem pabbi vissi um.

 

Valborg dóttir Einars hefur tekið saman ýmislegt um föður sinn, ættfræðigrúskið og ferðirnar til Kanada þegar hann fann loksins ættingja sína þar:

Saga Einars

Faðir minn Einar Ingimundarson fékk áhuga á ættfræði þegar hann fór að eldast og þegar hann áttaði sig á því að flestir aðrir en hann ættu fullt af frænkum og frændum, en hann bara einn frænda.  Þetta varð til þess að hann fór sjálfur að grúska í ættfræði og skrifa sína eigin ættartölu í móður- og föðurætt. 
Fann hann þá út að þrír ættingjar hefðu flutt til Kanada. Voru það Vigfús Bjarnason ömmu bróðir hans, en afkomendur hans nota ýmist Vigfússon eða Bjarnason nafnið. Hinir voru Þóra Jónsdóttir og Jónas bróðir hennar, sem mun hafa horfið. Þóra eignaðist tvö börn, Guðjónu Láru Guðnadóttur Sigvaldason og Kristjan Thord, en það fólk er skylt okkur í móðurætt pabba. Móðir mín átti einnig einn ættingja sem flutti til Kanada, það var bróðursonur afa hennar Sveinn G. Northfield, en hann var myndasmiður og póstafgreiðslumaður í Edinburg N-Dakota. Við höfum aldrei hitt neinn úr þeirri fjölskyldu, pabbi fann hann ekki fyrr en 2008 þar sem hann hafði tekið upp ættarnafnið Northfield.

Katrin&Agust

Fred Bjarnason, Valborg, Árnina og Einar með Katrínu og Águsti börnum Valgeirs. Valgeir var lengi vel eini frændinn sem Einar vissi um að hann ætti.

 

 

 

 

 

Í framhaldi af þessu grúski fóru foreldrar mínir þrjár ferðir til Kanada og Bandaríkjanna. Árið 1999 náði pabbi símasamsambandi við John Vigfússon, en hafði ekki tækifæri til að hitta hann. Í framhaldi af því hófst samband við afkomendur Vigfúsar Bjarnasonar. Í þeirri ferð hittu þau Guðna Sigvaldason, en pabbi og hann voru fjórmenningar. Guðni talaði góða íslensku, hann kom svo ásamt börnum sínum Oscari og Öldu í stutta heimsókn til pabba árið 2001. Í haust kom sonur hans Oscar Sigvaldason í stutta heimsókn til foreldra minna. Árið 2000 fóru foreldrar mínir á vesturströnd Kanada, en hittu engin skyldmenni í þeirri ferð. Árið 2001 á Íslendingadaginn í Gimli, hittu þau nokkra afkomendur Vigfúsar Bjarnasonar. Þeirra á meðal Daisy Guðrúnu Isfjörd (Vigfússon) og Elert mann hennar, og komu þau stuttlega heim til þeirra.

Dasy

Einar og Árnína með Daisy og Elert í Gimli 2001.

 

 

 

 

 

 

 

Einar&4

Árnína og Einar með þeim bræðrum John Gilbert og Reymond.

 

 

 

 

 

 

 

 

Tveimur dögum síðar fréttu þau að Daisy hefði látist þá um morguninn. Næsta laugardag var jarðsett frá Lúthersku kirkjunni í Gimli. Gilbert bróðir Daisyar sótti þau til Winnipeg um 100 km leið. Jarðarförin var fjölmenn og í erfidrykkjunni hittu foreldrar mínir marga af afkomendum Vigfúsar Bjarnasonar, en gjarnan segist nú pabbi heldur hafa viljað hitta þetta fólk af öðru tilefni. Í framhaldi af þessari ferð komst á nánara samband við afkomendur Vigfúsar. Haustið 2003 hafði Fred Bjarnason samband við föður minn, hann var þá staddur hér á landi í sinni annarri ferð. Hann var hér á vegum Snorraverkefnisins ásamt Rúnu Bjarnason yngri, en þau eru systkinabörn.   Fred og Rúna höfðu áhuga á að hitta foreldra mína og úr varð að ég færi  með foreldrum mínum að hitta þau. Fred hefur sennilega komið til landsins fjórum sinnum síðan og dvalið hér á landi samtals í um 6 mánuði. 

Runa&Fred

Runa og Fred Bjarnason hjá Einari og Árnínu.

 

 

 

 

 

 

Sharon Thordarson hafði samband við mig í gegnum tölvupóst, en hún hafði fengið netfang mitt hjá tengdamóður sinni Vilborgu Thordarson (Vigfusson). Sharon kom hingað í maí ár 2006 ásamt móður sinni Bennu Martin og systur Sandy Grant. Lilja Schooley (Vigfusson) hafði samband við Fred árið 2004 og spurði hann um ættingja á Íslandi en hún hafði áhuga á að koma hingað í heimsókn.  Hann vísaði henni  á mig og við vorum í miklum bréfaskriftum og þau hjónin komu svo hingað í rúmlega þriggja vikna heimsókn í ágúst 2006.

Lilja&Elert

Lilja og Richard með Árnínu Valborgu (og Einari) á Þingvöllum 2006.

(Smella=stærri mynd)

 

 

 

 

 

 

Ég endurgalt svo þá heimsókn í ágúst 2008, en þá fór ég i þriggja vikna heimsókn til Kanada ásamt Kamillu Rún barnabarni mínu.  Við flugum á Montreal og þaðan til vestur strandarinnar, þar sem við hittum Fred, Lilju og fleiri ættingja.  Sigldum norður og ókum síðan með Lilju til Winnipeg.  Í Gimli kynnist ég fleiri ættingjum en ég hef tölu á.  Í júní 2009 komu systurnar Louise Tower og Kerrine Adair (dætur Daisy Vigfusson) í 3 vikna heimsókn til landsins.  Á meðan þær systur dvöldu hér á landi héldum við lítið ættarmót, þar sem margir afkomendur Vigdísar og Benedikts Bjarnasonar mættu. Það kom mér á óvart hversu margir í fjölskyldunni höfðu áhuga á nánari tengslum við ættingja fyrir Vestan. Á ættarmótinu í Perlunni tilkynntu þær systur að um fyrirhugað ættarmót á Oslandi 2011.

Perla

Myndir frá ættarmótinu í Perlunni 2009.

Í ágúst 2009 fórum við í vikuheimsókn til Victoriu og  hittum fleiri ættingja mína. Þessi  samskipti mín við fjarskylda ættingja mína í Vesturheimi hafa verið afar ánægjuleg og náin tengsl hafa myndast við marga.  Góð tengsl eins og þessi opna möguleika á að fara í heimsóknir á báða vegu, sem annars væru varla möguleg.  Það má segja að draumur föður míns hafi ræst, því nú hefur hann fundið fullt af skyldfólki, ekki bara hér á Íslandi heldur út um allan heim!

Valborg Einarsdóttir, afkomandi Vigdísar Bjarnadóttur

Einar2

Einar var mikill glímumaður á árunum 1941-1955, og fekk mörg verðlaun. Hann var síðar lögregluþjónn í Keflavík 1947-1961

Home < Home